Ferill 566. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1343  —  566. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Valgerði Árnadóttur um starfsfólk starfsmannaleigna.


     1.      Hversu margar starfsmannaleigur eru starfræktar á Íslandi?
    Í desember 2023 voru 22 starfsmannaleigur skráðar hjá Vinnumálastofnun í samræmi við lög um starfsmannaleigur, nr. 139/2005.

     2.      Hversu margir hafa komið hingað til lands til að starfa hjá starfsmannaleigum síðastliðin tíu ár? Svar óskast sundurliðað eftir árum, atvinnugreinum, ríkisfangi og kyni starfsfólks.
    Í meðfylgjandi fylgiskjölum má sjá fjölda starfsfólks sem hefur starfað á hverju ári hjá starfsmannaleigum síðastliðin tíu ár, greint eftir árum, atvinnugreinum, ríkisfangi og kyni. Upplýsingarnar eru fengnar frá Vinnumálastofnun.

     3.      Hversu lengi hefur starfsfólk starfsmannaleigna dvalið að jafnaði á Íslandi síðastliðin tíu ár? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Upplýsingar um hve lengi starfsfólk starfsmannaleigna hefur dvalið að jafnaði hér á landi liggja hvorki fyrir hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu né hjá Vinnumálastofnun. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um hvort og þá hvar unnt er að nálgast slíkar upplýsingar.

     4.      Er íbúðarhúsnæði sem starfsfólki starfsmannaleigna er boðið tekið út með tilliti til brunavarna?
    Samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, fer innviðaráðuneyti með mál er varða brunavarnir. Upplýsingar um hvort íbúðarhúsnæði sem starfsfólki starfsmannaleigna er boðið sé tekið út með tilliti til brunavarna liggja því hvorki fyrir hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu né hjá Vinnumálastofnun.

     5.      Er fólk sem hingað kemur til að starfa hjá starfsmannaleigum upplýst um réttindi sín samkvæmt vinnulöggjöf af Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitinu eða viðkomandi stéttarfélagi?
    Við vinnustaðaeftirlit Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlits ríkisins eru starfsmenn starfsmannaleigna almennt upplýstir um réttindi sín á vinnumarkaði samkvæmt þeim lögum sem gilda hér á landi. Þá má nálgast upplýsingar um skyldur starfsmannaleigna og réttindi starfsfólks starfsmannaleigna á vefsíðu Vinnumálastofnunar. Á vefsíðu Vinnueftirlits ríkisins má enn fremur finna almennar upplýsingar í tengslum við vinnuvernd á vinnumarkaði hér á landi. Á vefsíðunni posting.is má jafnframt nálgast helstu upplýsingar um réttindi og skyldur starfsfólks erlendra þjónustuveitenda og starfsmannaleigna á íslenskum vinnumarkaði.
    Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið býr ekki yfir upplýsingum um samskipti stéttarfélaga við fólk sem kemur hingað til lands í því skyni að starfa hjá starfsmannaleigum.

Fylgiskjal I.


Starfsmannaleigur. Atvinnugreinar eftir árum.


www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s1343-f_I.pdf


Fylgiskjal II.


Starfsmannaleigur. Ríkisfang eftir árum.


www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s1343-f_II.pdf


Fylgiskjal III.


Starfsmannaleigur. Kyn eftir árum.


www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s1343-f_III.pdf